Skólareglur Réttarholtsskóla
Í Aðalnámskrá grunnskóla er lögð áhersla á að nemendur þurfa að læra að umgangast hver annan og allt starfsfólk skóla í sátt og samlyndi og taka ábyrgð á eigin framkomu og hegðun og virða skólareglur. Meðal grundvallarréttinda nemenda er að hafa vinnufrið í skólanum þannig að þeir geti náð sem bestum tökum á náminu og að kennslan nýtist þeim sem best (bls. 45).
Reglur Réttarholtsskóla eru samdar í samráði við nemendur og starfsfólk skólans. Reglur skólans eru í meginatriðum settar fram í jákvæðum anda til leiðbeiningar um framkomu og samskipti milli nemenda og starfsfólks. Nemendur eiga rétt á menntun sem laðar fram hæfileika hvers einstaklings. Starfsfólki og nemendum ber að skapa aðstæður sem gera öllum kleift að ná þessu marki.
Samskipti
Allir sem í skólanum eru eiga að temja sér eftirfarandi grundvallarreglur:
- AÐ VERA TILLITSÖM/SAMUR Virtu rétt einstaklingsins og forðastu orð og athafnir sem misbjóða öðrum.
- AÐ VERA KURTEIS Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.
- AÐ VERA SAMVINNUÞÝÐ/UR Allir þurfa að læra að vinna með öðrum.
- AÐ VERA VINGJARNLEG/UR Vingjarnleg framkoma stuðlar að vellíðan allra.
- AÐ VERA VINNUSÖM/SAMUR Gerðu þitt besta.
- AÐ VERA HEIÐARLEG/UR Sýndu öðrum að þér sé treystandi.
- AÐ VANTREYSTA EKKI ÖÐRUM AÐ ÁSTÆÐULAUSU Trúðu því að aðrir vilji raunverulega aðstoða þig.
- AÐ VERA ÁBYRG/UR Berðu ábyrgð á eigin orðum og gerðum.